cameracrew.jpg

FRÁ FORMANNI RSÍ TIL KVIKMYNDAGERÐARMANNA

 

Ágæti kvikmyndagerðarmaður,

Á þeim tímamótum að Félag kvikmyndagerðarmanna hefur gengið inn í Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) vill ég bjóða þig sem félagsmann þess velkominn inn í Rafiðnaðarsambands fjölskylduna. Í RSÍ voru fyrir 8 aðildarfélög sem halda utan um sína félagsmenn úr mismunandi áttum. Við erum með fjögur félög sem halda utan um þá sem eru með menntun í rafvirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun og símsmíði en þau hafa mismunandi félagssvæði um landið. Auk þess er félag fyrir rafeindavirkja, annað fyrir tæknifólk í rafiðnaði, starfsmenn hjá Símanum og dótturfyrirtækjum sem og sýningarstjórar við kvikmyndahús.

RSÍ gerir fjölda kjarasamninga fyrir félagsmenn sína en þó er einn kjarasamningur sem telst til þess að vera almennur kjarasamningur og setur þar með lágmarkslaun fyrir félagsmenn RSÍ á Íslandi. Þetta þýðir að óheimilt er fyrirtækjum að greiða laun sem eru undir töxtum kjarasamningsins en ekki síður að láta starfsmenn njóta réttinda sem eru lakari en kjarasamningurinn segir til um. Aðrir kjarasamningar eru sérkjarasamningar sem geta tryggt betri kjör, réttindi og mögulega aðrar skyldur.

Það er mér sönn ánægja að fá þig inn í samfélag rafiðnaðarmanna og vona ég að við eigum eftir að eiga gott samstarf á næstu árum. Hafir þú spurningar um starfsemi okkar, réttindi eða skyldur, rétt til styrkja eða hvað svo sem kemur upp þá hvet ég þig til að hika ekki og hafa samband við skrifstofuna hvort sem það er með því að senda tölvupóst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., hringja í síma 580-5200 eða hreinlega að kíkja við í kaffi á Stórhöfða 31, 3. hæð.

Kær kveðja,

Kristján Þórður Snæbjarnarson

 

Ávarp Formanns í tilefni 50 ára afmælis

afmælisraedaMig dreymdi í nótt að ég væri að fara halda fyrir ykkur ræðu og ég hafði gleymt að skrifa hana niður. Í draumnum var ég drullu stressuð þar sem að ég stóð í pontu í stórum almenningsgarði, með fullt af kvikmyndagerðarmönnum fyrir framan mig og vissi ekki alveg hvað ég átti að segja. Hljóðneminn var allur í henglum, feedback í hátölurnum og engin ræðan í vasanum og góð ráð dýr.  Ég leiti flóttalega í kringum mig og byrjaði að spinna og sagði: Heil og sæl, Hrafnhildur Gunnarsdóttir heiti ég, er formaður FK, kvikmyndagerðarmaður og nektardansmær…. 

Ég ætla ekki að segja ykkur hvað gerðist næst en það varð til þess að ég útbjó ræðu fyrr í dag til að lenda ekki í því sama. En kannski er það ekkert undarlegt að ég skyldi finna upp á því að segjast vera nektardansmær enda er þetta félag dáldið karllægt og mikill meirihluti félagsmanna eru strákar þannig að kannski fannst einhverjum innsta kjarna í mér (er komin út á hálan ís í Jungian túlkun) að ég þyrfti að vera nektardansmær til þess að ganga í augun á ykkur. En auðvitað er það vonandi ekki svo enda hefur stjórn félagsins staðið í ströngu á síðustu misserum við að efla félagið og styðja við íslenska kvikmyndagerðarmenn meðal annars með því að bregðast við mjög sterkum óskum frá stórum hópi félagsmanna um að FK myndi stofna stéttarfélagsdeild til þess að vinna að því að breyta aðstæðum til hins betra fyrir hinn almenna kvikmyndagerðarmanna í stóru leiknu innlendu og erlendu kvikmyndununum og verkefnunum.  En það er ljóst að félagið stendur á ákveðnum tímamótum núna þegar að stéttarfélagsdeildin hefur loksins tekið til starfa og við komin undir verndarvæng stóra bróðurs – Rafiðnaðarsambands Íslands sem hefur nú hafist handa við að rýna í það sem hægt er að laga strax. En þetta verður örugglega langur og strangur vegur framundan.

Hið góða er að með stéttarfélagsvæðingu mun samstaðan og vonandi fjárhagur félagsins batna til muna þannig að það verði auðveldar fyrir stjórn félagsins að láta ýmsa drauma rætast t.d. um endurmenntun og eflingu á faggildunum innan fagfélagsins. FK og reyndar flest félögin í kvikmyndagerð þ.e. SÍK og SKL hafa verið verulega fjársvelt undanfarin ár eftir að botninn datt úr IHM greiðslum til félaganna þegar að sala á DVD, spólum og diskum dalaði og tekjustofn IHM skattsins hrundi. Það var grundvöllur þess starfs sem við héldum úti og því hefur t.d. öllu starfi sem sinnt hefur á vegum FK verið framkvæmt í botnlausri sjálfboðavinnu á undanförnum þremur árum.  Það má þakka Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra fyrir það að koma frumvarpi um fjárhagslega lausn á höfundréttagreiðslum og sérstökum fjárlagalið í stað IHM skatts á spólur, DVD og geisladiska í gegnum þingið núna rétt fyrir kosningar því það mun skila sér í eflingu á innra starfi hjá kvikmyndagerðarmönnum á næstu árum.

Nú nýlega skrifuðu kvikmyndagerðarmenn  undir nýtt kvikmyndasamkomulag við ríkið fyrir 2016-2019 og þó svo að ákveðin gagnrýni sem á að sumu leiti rétt á sér hafi komið fram um samkomulagið sem vill gera stóra hluti en er í raun ekki nægilega vel fjármagnað til þess að framkvæma þá. Þetta var þó það besta í stöðunni og það er mitt mat að með þessu samkomulagi höldum við a.m,k. áfram veginn og vonandi tekst okkur að sýna fram á hvað öflug kvikmyndagerð þýðir í hagrænu tilliti. Öll vitum við hversu mikilvægt er að styðja við hina ofurviðkvæmu íslensku tungu og íslensku menningu því ef íslensk stjórnvöld gera það ekki gerir það enginn annar. Og stóru tíðindin í samkomulaginu eru auðvitað þau að mælst er til þess að hlutur karla og kvenna verði jafnaður á næstu árum í styrkveitingum Kvikmyndamiðstöðvar. Það er vel fyrir réttlátt samfélag - hér skal engin Trumpismi líðast.

Það glittir í blómlega tíma í samstarfi við aðra miðla þó svo að áhorf og neysluvenjur séu að breytast. Ýmsar veitur poppa upp fyrir kvikmyndað efni og enginn veit hvernig þetta endar allt saman en eitt er víst að þörfin og markaðurinn er til staðar fyrir íslenskt efni. Þetta veit RÚV og er ánægjulegt að jafnaldri okkar ætli núna að leggja mikla áherslu á frumsköpun, nýtt íslenskt efni og mun leita til okkar fólks til þess að framleiða og koma á skjáinn.

Við hjá félagi kvikmyndagerðarmanna eigum í ýmsu samstarfi ekki bara við íslenska ríkið, aðra listamenn undir hatti BÍL - Bandalagi Íslenskra Listamanna undir frábærri stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur, heldur einnig við Reykjavíkurborg undir forystu Dags B. Eggertssonar t.d. um Heimili kvikmyndanna - Bíó Paradís sem við erum ákaflega stolt af og kvikmyndhátíðirnar í Reykjavík.  Nú virðast einnig áætlanir um kvikmyndaþorpið Reykjavík ætla að rætast ef áætlanir ná fram að ganga með hreiðurgerð út í Gufunesi fyrir kvikmyndagerðarmenn. Þar eru mörg spennandi tækifæri fyrir grein í vexti ekki síst ýmsa nýsköpun á vettvangi kvikmynda, sjónvarps og leikjagerðar.

Nú það er ýmislegt sem að við þurfum að passa á komandi árum. Það er áhugavert og sárt að fylgjast með því að stundum er verið að flytja inn erlenda kvikmyndagerðarmenn til þess að ganga í störfin sem þó eru ekki mörg. Við þurfum að passa upp á það að fólkið okkar fái nóg að gera til að halda faglegri þekkingu sinni við og ná að blómstra og eflast.

Að lokum þetta. Á sínum tíma leiddist ég fyrir forvitnissakir út í þetta félagastarf með FK vegna þess að mig langaði að skilja af hverju það var svo oft rifrildi og læti í þessum bransa og þeirri einlægu ósk minni að þessi hópur sameinaðist.  Núna eftir tæp 10 ár þá er ég einhverju nær því  þetta er vissulega hópur eldhuga sem þurfa sitt pláss og eru með sínar meiningar. En eftir því sem ég best fæ séð að þá eru flestir sammála um mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar ekki bara fyrir íslenska tungu og íslenska  sjálfsmynd heldur einnig vegna þess að þetta endalausa vor í íslensk kvikmyndagerð hlýtur að lokum að leiða til sumars. Á meðan að við sígum í rétta átt skulum við vera góð við hvort annað og standa vörð um íslenska kvikmyndagerð hún er stolt okkar og vaxtabroddur inn í framtíðina. Við erum vonandi öll að vinna að sama markmiði: spegla sjálfsmynd þjóðar, þar sem allar raddir heyrast ekki bara krumpaðra karla í krísu, og útkoman gæða íslenskt kvikmyndað efni fyrir innlendan sem erlendan markað. 

Til hamingju kvikmyndagerðarmenn með árin 50, skál fyrir framtíðinni.  

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður FK

Skýrsla formanns v. 2009

Skýrsla formanns FK v. starfsársins 2009.

 

Árið 2009 var ár kreppu og niðurskurðar á mögum sviðum. Því fengu kvikmynda-gerðamenn að kynnast þegar tilkynnt var um stórfelldan niðurskurð upp á 34% á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar. Síðari hluti nýliðins starfsárs hefur einkennst af þessari baráttu kvikmynda-gerðarmanna til þess að reyna fá leiðréttingu og vera nær öðrum greinum i þeim niðurskurði sem núverandi efna-hagsástand kallar á. Það hefur verið ánægjulegt á sjá að kvikmyndagerðar-menn, einstaklingar og félög sem starfa í geiranum hafa staðið þétt saman í þessari baráttu.

Sjá nánar...

Menning fylgir ókeypis

Hjálmtýr Heiðdal

 

Um hagræn áhrif kvikmyndaframleiðslu

MENNINGIN FYLGIR ÓKEYPIS 

Nýlega sótti ég tvo fundi þar sem fjallað var um stöðu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar. Fyrri fundurinn var málþing á vegum RIFF undir skrítinni yfirskrift: Hvert fer íslensk kvikmyndagerð héðan? Sá seinni var á vegum Háskólans að Bifröst og fagfélaga kvikmyndageirans. Fyrri fundurinn var fjölsóttur og misheppnaður. Þar sat aðeins einn fulltrúi ríkisstjórnarinnar og þingsins allan fundinn; Árni Páll Árnason viðskipta- efnahagsmálaráðherra. Þótt hans innlegg í umræðuna væri fróðlegt og vísaði til framtíðar þá kom það skýrt fram að kvikmyndagerð væri ekki á hans málasviði og má því segja að hann hafi verið rangur maður á vitlausum stað. Fjarvera fulltrúa Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og stutt viðdvöl Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra gerði útslagið, umræðan náði ekki eyrum þeirra sem hafa möguleika á að koma viðhorfum kvikmyndagerðarmanna áfram. Baltasar Kormákur stakk uppá því að menn yfirgæfu salinn og sinntu öðrum málum í stað þess að enn eina ferðina hlusta á kollegana kvarta yfir skilningslausu ríkisvaldi. Sennilega var það besta hugmynd málþingsins og í anda hinnar skrítnu yfirskriftar þess: komum okkur héðan!

Fimmtudaginn 29. september var kvikmyndagerðamönnum enn smalað saman, nú til þess að fræðast um nýútkomna bók um Hagræn áhrif kvikmyndalistar eftir Ágúst Einarsson hagfræðing og prófessor á Bifröst. Eftir fyrirlestur Ágústar var ljóst að allt það sem við kvikmyndagerðarmenn og fleiri höfum sagt árum saman, um geysilega jákvæð hagræn áhrif kvikmyndagerðarinnar, er satt og sannreynt. Það sýnir sig að kvikmyndagerð er vistvæn, hún einkennist af nýsköpun, skilar hagnaði til þjóðarbúsins, styður við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni og býr yfir geysilegum vaxtarmöguleikum. Varlega áætlað fær ríkið 5 krónur til baka fyrir hverja krónur sem það fjárfestir í kvikmyndagerð. Menningin sem kvikmyndir skila þjóðinni er því hreinn virðisauki.

En þessar staðreyndir virðast ekki ná inn á skilningssvið ráðamanna - þeir virðast vera með slökkt á móttakaranum eða utan þjónustusvæðis.

Hvað veldur?

Sjá nánar...

Ályktanir FK frá Aðalfundi 2010

Ályktun aðalfundar FK ályktar um Ríkisútvarpið

Ríkisútvarpið er ein af mikilvægustu menningarstofnunum Íslendinga. Starfsemi RÚV hefur áhrif á velgengni og vöxt kvikmyndagerðar á Íslandi. Þess vegna er það hluti samningsins milli Menningar- og menntamálaráðuneytisins og RÚV um útvarp í almannaþágu að RÚV skuli „styrkja og efla“ kvikmyndagerð með kaupum á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum frá sjálfstæðum framleiðendum. Ákvörðun yfirmanna RÚV um að skera stórlega niður þennan þátt starfseminnar, sem er mjög lítill fyrir, er aðför að tilvistarrétti stofnunarinnar. Síaukin áhersla á RÚV sem fyrirtæki í baráttu á auglýsingamarkaði í tíð núverandi stjórnenda vinnur gegn mikilvægum skyldum RÚV í menningarlífi allrar þjóðarinnar.

 

Ályktun v. niðurskurðar hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Aðalfundur Félags Kvikmyndagerðarmanna mótmælir niðurskurði fjárveitinga til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Margra ára uppbyggingarstarf í kvikmyndaiðnaði verður eyðilagt og atvinnuleysi blasir við mörgum kvikmyndagerðarmönnum.

Það er öllum ljóst að víða verður að skera niður útgjöld í núverandi ástandi og kvikmyndagerðarmenn skorast ekki undan í þeim efnum. En þeir krefjast þess að slíkur niðurskurður verði gerður á skynsamlegan máta og ekki vegið að einni grein langt umfram aðrar eins og raunin er á þessum fjárlögum. Ljóst er að þessi niðurskurður mun bitna á sjálfstæðum framleiðendum og einstaklingum sem starfa við kvikmyndagerð. Jafnframt mun þetta leiða til tekjumissis fyrir fleiri starfsgreinar og ekki hvað síst ríkissjóðs þar sem  sýnt er að fjárveitingar til kvikmyndagerðar skila sér í heildina margfalt til baka m.a. með skatttekjum. Hér er dapurlegt dæmi um að verið sé að kasta krónu fyrir aura.

Félag kvikmyndagerðamanna / The Icelandic Film Makers Association | Hverfisgata 54 | 101 Reykjavík | Iceland
Vefhönnun: Hugsa sér!